Færsluflokkur: Bloggar
15.2.2008 | 23:34
Ísland, annar kapítuli, Kerlingafjöll.
Fyrst ég er byrjaður að tjá mig aftur þá er rétt að halda áfram.
Kerlingafjöll. Það er magnaður staður. Og alveg ótrúlegt hvað fáir hafa í raun komið þangað og upplifað staðinn. Þetta var fyrir nokkrum árum vinsæll sumarskíðastaður - en nú er eins og hann hafi fallið í gleymskunnar dá.
Til að komast í Kerlingafjöll ekur maður Kjalveg. Sem er orðinn nokkurn veginn fólksbílafær á sumrin. Það er samt kannski ekki ráðlegt að ætla sér í Kelló á fólksbíl því eftir að beygt er af Kjalvegi tekur við góður vegur - en með óbrúuðum vatnsföllum. Á venjulegum sumardegi eru þau ekki stór farartálmi, en geta orðið ansi svæsin í rigninga eða leysingatíð.
En þegar maður kemur upp á Kjöl (og þarf ekki að hafa áhyggjur af að skrapa bensíntankinn undan Yarisnum sem maður leigði hjá Hertz) tekur við ótrúleg auðn, ótrúleg fegurð, jöklar á báða bóga og andi Eyvindar og Höllu allt í kring.
Kerligafjöllin standa svo uppúr. Glæsilegur líparítfjallaklasi, snævi skrýddir eldfjallatoppar.
Þarna er eitt fallegasta hverasvæði landsins. Hveradalirnir eru með allann litaskala náttúrunnar á sínum gufu- og vatnsspúandi könnum. Yfir þeim gnæfa tindarnir snjóugu, Loðmundur, Snækollur, Fannborgin og ótal aðrir tindar. Af Snækolli er eitthvert besta útsýni sem finna má á Íslandi - ef veður og skyggni leyfir......
Í (næstum alveg) skjólsælum dal er svo búið að byggja upp notalega gistiaðstöðu sem samanstendur af þjónustuskál, nokkrum litlum A-skálum og svo lítið og notalegt tjaldstæði.
Auðvitað mætti ýmislegt bæta. Fyrir tjaldstæðin mundi það t.d. stórbreyta aðstöðunni ef vaski og krana með rennandi neysluvatni væri komið fyrir við tjaldflötina. Jafnvel mætti setja þar upp klósett, svona rétt neðan við tjaldflötina, til að tjaldgestir þurfi ekki alltaf að leggja á sig langa gönguferð að næturlagi til að sinna kalli náttúrunnar.
En starfsfólkið þarna leggur sig allt fram. Þjónustumiðstöðin stendur virkilega undir nafni sem slík á sumrin. Kerlingafjöllin fá fínustu einkunn - sem ferðamannastaður fyrir ALLA.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2007 | 00:56
Ísland, fyrsti kapítuli, Möðrudalsöræfi
Seinustu 13 árin hef ég verið að vinna við að sýna túristum landið okkar. Með mjög góðum árangri.
Landið okkar býður upp á marga fallega og góða kosti. Ég ætla að segja frá þeim góðu - og líka þeim vondu.
Einn af mögnuðustu stöðum sem ég kem á á ferðum mínur er Fjallakaffi á Möðrudalsöræfum. Til þess að komast þangað þarf maður að fara útaf þjóðvegi númer 1. Ef við gefum okkur að við séum að koma að austan þá er ekið uppúr Jökuldalnum og allt í einu, þegar ekkert virðist vera að gerast, þá kemur skilti uppúr móanum við hliðina á veginum sem segir Möðrudalur. Þar beygir maður.
Við tekur akstur sem er öllum nútímamönnum hollur. Ef þú horfir í kringum þig þá skilurðu orðið öræfi. Gríðarlegar auðnir sem tengjast Öskjugosum harðri baráttu íslenskra kotbænda við óblíð náttúruöfl.
Þegar maður kemur á Möðrudal í dag tekur á móti manni glæsileg umgjörð Fjallakaffis, nútíma torfhúss sem býður upp á fína kjötsúpu og ýmsa aðra íslenska rétti, fínt tjaldsvæði, nokkur "torf"gistihús að ógleymdri kirkjunni, sögunni og myndunum eftir listamanninn góða sem við ættum öll að þekkja. Ef þið þekkið ekki Stefán - þá er rétt að reyna að kynnast honum - og hans hreina hjarta.
Í suðri blasir við Herðubreið, drottning íslenskra fjalla... Þessi staður hefur töframátt.
Og er skammt utanvið þjóðveg númer 1... milli Egilsstaða og Mývatns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)