Ísland, annar kapítuli, Kerlingafjöll.

Fyrst ég er byrjaður að tjá mig aftur þá er rétt að halda áfram.

 Kerlingafjöll.  Það er magnaður staður. Og alveg ótrúlegt hvað fáir hafa í raun komið þangað og upplifað staðinn.  Þetta var fyrir nokkrum árum vinsæll sumarskíðastaður - en nú er eins og hann hafi fallið í gleymskunnar dá.

Til að komast í Kerlingafjöll ekur maður Kjalveg.  Sem er orðinn nokkurn veginn fólksbílafær á sumrin.  Það er samt kannski ekki ráðlegt að ætla sér í Kelló á fólksbíl því eftir að beygt er af Kjalvegi tekur við góður vegur - en með óbrúuðum vatnsföllum.  Á venjulegum sumardegi eru þau ekki stór farartálmi, en geta orðið ansi svæsin í rigninga eða leysingatíð.

En þegar maður kemur upp á Kjöl (og þarf ekki að hafa áhyggjur af að skrapa bensíntankinn undan Yarisnum sem maður leigði hjá Hertz) tekur við ótrúleg auðn, ótrúleg fegurð, jöklar á báða bóga og andi Eyvindar og Höllu allt í kring.

Kerligafjöllin standa svo uppúr. Glæsilegur líparítfjallaklasi, snævi skrýddir eldfjallatoppar.

Þarna er eitt fallegasta hverasvæði landsins.  Hveradalirnir eru með allann litaskala náttúrunnar á sínum gufu- og vatnsspúandi könnum.  Yfir þeim gnæfa tindarnir snjóugu, Loðmundur, Snækollur, Fannborgin og ótal aðrir tindar.  Af Snækolli er eitthvert besta  útsýni sem finna má á Íslandi - ef veður og skyggni leyfir......

Í (næstum alveg) skjólsælum dal er svo búið að byggja upp notalega gistiaðstöðu sem samanstendur af þjónustuskál, nokkrum litlum A-skálum og svo lítið og notalegt tjaldstæði.

Auðvitað mætti ýmislegt bæta.  Fyrir tjaldstæðin mundi það t.d. stórbreyta aðstöðunni ef vaski og krana með rennandi neysluvatni væri komið fyrir við tjaldflötina.  Jafnvel mætti setja þar upp klósett, svona rétt neðan við tjaldflötina, til að tjaldgestir þurfi ekki alltaf að leggja á sig langa gönguferð að næturlagi til að sinna kalli náttúrunnar.

En starfsfólkið þarna leggur sig allt fram.  Þjónustumiðstöðin stendur virkilega undir nafni sem slík á sumrin.  Kerlingafjöllin fá fínustu einkunn - sem ferðamannastaður fyrir ALLA.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband